Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til að aðhafast vegna samruna Straums fjárfestingarbanka og Íslenskra verðbréfa (ÍV), samkvæmt ákvörðun sem birt hefur verið á heimasíðu eftirlitsins.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í lok síðasta árs öðlaðist Straumur yfirráð yfir ÍV þegar bankinn eignaðist meirihluta hlutafjár í fyrirtækinu. Við kaupin sendi Stramur tilkynningu til Samkeppniseftirlitsins vegna samrunans.

Nú hefur Samkeppniseftirlitið gefið það út, að undangenginni rannsókn, að niðurstaða þess sé að engar vísbendingar séu um að samruni félaganna hindri virka samkeppni.

„Með samrunanum mun 27,5% hlutur Íslandsbanka í ÍV hins vegar fara til aðila sem er ótengdur stóru bönkunum þremur. Að öðru jöfnu er sú ráðstöfun jákvæð fyrir samkeppni á markaðnum, jafnframt kann með samrunanum að verða til aðili á markaði sem getur veitt stóru bönkunum þremur virkari samkeppni á sviði eignastýringar en fyrir samrunann,“ segir í ákvörðuninni.