Tryggingamiðstöðin hf. er á meðal þeirra fagfjárfesta sem taka yfir innlenda starfsemi MP banka og starfsemi bankans í Litháen. Þetta staðfestir Sigurður Viðarsson, forstjóri félagsins, í samtali við Viðskiptablaðið. Að hans sögn mun tryggingafélagið eignast um 6% hlut í bankanum, sem felur í sér 300 milljóna króna fjárfestingu en eins og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins af kaupum fjárfestahópsins á MP banka í liðinni viku leggja nýir eigendur bankanum til 5 milljarða króna í formi nýs hlutafjár.
Í gögnum þeim sem vitnað er í í áðurnefndri frétt Viðskiptablaðsins segir orðrétt: "Títan fjárfestingarfélag og Samherji leiða hóp fjárfesta sem koma með 5 ma.kr. í nýtt eigið fé. Þar á meðal eru lífeyrisjóðir, tryggingafélög og aðrir fagfjárfestar." Af þessu má ráða að Tryggingamiðstöðin er ekki eina tryggingafélagið í hinum nýja eigendahópi.
Að sögn Sigurðar mun Tryggingamiðstöðin ekki vera virkur aðili í eigendahópi bankans. "Þetta er eingöngu fjárfesting, við munum hvorki eiga fulltrúa í stjórn MP banka né reyna að hafa áhrif á stjórnun hans," segir Sigurður en gangi áætlanir nýrra eigenda bankans um rekstur hans eftir er ljóst að fjárfestingin gæti reynst TM ábatasöm þegar fram líða stundir. Gert er ráð fyrir 34 milljóna króna hagnaði á þessu ári, tæplega 700 milljóna hagnaði á næsta ári og rúmlega 1.100 milljóna hagnaði árið 2013.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.