Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mun ekki greiða atkvæði um frumvarp um kvótasetningu á makríl vegna tengsla sinna við fyrirtæki í sjávarútvegi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Páll sendi fyrir skemmstu. Páll hefur verið gagnrýndur fyrir að taka þátt í meðferð atvinnuveganefndar um frumvarpið í ljósi hagsmunatengsla sinna, en eiginkona Páls er eigandi smáútgerðarinnar Marvers.

Páll segist í störfum sínum á Alþingi ekki hafa dregið fjöður yfir þá staðreynd að tengsl hans við sjávarútveginn væru töluverð. Páll hefur starfað við sjávarútveg og á 5% hlut í útgerðarfélaginu Vísi hf., auk þess sem eiginkona hans er eigandi og framkvæmdastjóri útgerðarinnar Marvers ehf. Hann segir þau tengsl ekki tilgreind í hagsmunaskráningu vegna þess að ekki sé gert ráð fyrir skráningu á eignum maka þingmanns eða gefinn möguleiki á aukalegum athugasemdum í þeirri skráningu.

„Vegna ofangreindra tengsla hef ég ekki greitt atkvæði í atkvæðagreiðslum þingsins um kvótamál, veiðileyfa- eða veiðigjaldamál. Hins vegar hef ég áskilið mér rétt til að taka þátt í umræðu um þessa grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar, enda er mikilvægt að sjónarmið þeirra sem þekkja vel til greinarinnar heyrist,“ segir Páll Jóhann. Páll segist hafa lýst yfir efasemdum um ágæti þess að hlutdeildarsetja handfæraveiðar smábáta á markíl. Sú skoðun breyti ekki þeirri staðreynd að hann muni sitja hjá þegar atkvæði verða greidd um málið.