Hlutabréfaverð nokkurra af stærstu flugfélögum heims hefur fallið um 10-15% síðustu viku í kjölfar nýrrar bylgju kórónuveirufaraldursins. Flugfélög beggja vegna Atlantshafsins hafa skorið niður sætaframboð til muna frá áður tilkynntum áformum. „Það hafa allir þurft að draga í land með áætlanir sem gerðar voru fyrir nokkrum mánuðum,“ segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista. Algengt er að nú sé stefnt á að flugframboðið verði um 20-30% af því sem það var fyrir ári.

En hvað þýðir staðan fyrir Icelandair, sem lauk í síðustu viku 23 milljarða króna hlutafjárútboði? Félagið hefur flogið eina til þrjár áætlunarferðir á dag síðustu daga. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að fluggeirinn byrji að taka við sér að einhverju marki næsta sumar. Haldist ástandið hins vegar óbreytt og nær ekkert verði flogið, gera áætlanir þess ráð fyrir að það hafi aðgang að nægu lausafé til að lifa út árið 2022.

Í fjárfestakynningu fyrir útboðið var bent á að nýir kjarasamningar myndu skapa félaginu hagræði, auk þess að Boeing 737 MAX vélarnar myndu lækka rekstrarkostnað félagsins enda sparneytnari en eldri vélar. Arðsemi framan af síðasta áratug hafi verið umfram það sem gengur og gerist í fluggeiranum. Þá verði væntanlega áfram eftirspurn eftir því að fljúga til Íslands, þegar faraldurinn er liðinn hjá. Þá hefur verið bent á að strjálbýlið og fá smit kunni að vinna með Íslandi sem ferðastað.

Óvissan um framtíðarhorfurnar er hins vegar enn mikil. Kristján bendir á að erlend flugfélög eigi að hafa sömu tækifæri og Icelandair til að nýta sér áhuga á flugi til Íslands ef hann verður til staðar. „Ef spá Icelandair um að Ísland verði eftirsóttur áfangastaður eftir COVID-19 faraldurinn rætist þá situr Icelandair ekki eitt að þeim markaði. Þá munu væntanlega stór erlend flugfélög vilja sækja inn á markaðinn,“ segir Kristján.

Lággjaldaflugfélög á borð við Easyjet, Wizz Air og jafnvel Ryanair kunna þá að vilja hefja flug til landsins af krafti. Hann bendir á að Ryanair hefur skoðað flug til Íslands í að minnsta kosti tvígang undanfarinn áratug.

Icelandair benti á í fjárfestakynningunni að félagið myndi aðlaga sig aðstæðum. Væri gengi krónunnar sterkt og flugframboð mikið og farmiðaverð lágt þyrfti það að leika varnarleik og leggja áherslu á flug til og frá landinu. Yrði þróunin hins vegar hagstæðari líkt og raunin hafi verið þegar flugmarkaðir tóku við sér á ný eftir 11. september 2001 og fjármálahrunið 2008 gæti félagið sótt fram og aukið framboð sitt hratt á leiðinni yfir Atlantshafið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .