Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að í ljósi óróans á fjármálamörkuðum þurfi að skoða ýmislegt í umhverfi fjármálamarkaðarins.

Hann hefur til dæmis áhuga á að skoða í samstarfi við Kauphöllina og Samtök fjármálafyrirtækja hvort setja þurfi ramma um skortsölu.

„Álagið á okkur hefur vaxið vegna óróans sem verið hefur á alþjóðamörkuðum,“ segir Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að Fjármálaeftirlitið hafi til dæmis ekki farið varhluta af þeim áhuga sem erlendir aðilar hafi sýnt Íslandi undanfarna mánuði. FME tekur á móti fjölda gesta; fulltrúum greiningardeilda, lánshæfismatsfyrirtækja og fjölmiðla í hverjum mánuði, og allir vilja þeir fræðast meira um íslenskt efnahags- og fjármálalíf.

Einu sinni var fjöldi slíkra heimsókna kannski fimm til tíu á ári, segir Jónas, en þeim fjölgaði mjög mikið árið 2006, þegar „míníkrísan“ eins og hann nefnir hana, gekk yfir.

Það ár voru heimsóknirnar um sextíu. Í fyrra voru þær í kringum fjörutíu og í ár verða þær ekki færri. „Við höfum sérstaklega fundið fyrir mikilli aukningu síðustu tvo mánuði,“ útskýrir Jónas.

Þetta endurspeglar aukinn áhuga á Íslandi en áhuginn helst líka í hendur við alþjóðavæðingu íslensku bankanna og hraðan vöxt þeirra. Jónas bendir einnig á að áhuginn á Íslandi sé meiri en áhuginn á öðrum Norðurlöndum eða jafnvel Eystrasaltslöndunum, sé hann mældur í hlutfalli við stærð landanna.

„Umræðan um Ísland er þó oft og tíðum á villigötum. Til dæmis er verið að bera saman stærð bankanna við þjóðarframleiðslu. Menn átta sig þá ekki á því að bankarnir eru með meirihlutann af sinni starfsemi erlendis.“

_____________________________________

Í Viðskiptablaðinu á morgun er að finna ítarlegt viðtal við Jónas Fr. Jónsson. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .