Enska gæti misst stöðu sína sem opinbert tungumál Evrópusambandsins í kjölfar úrsagnar Bretlands úr sambandinu. Sjá Frakkar nú tækifæri til að gera frönsku loksins að aðaltungumáli sambandsins.

Rúmur helmingur íbúa talar ensku

Enska hefur smátt og smátt orðið að aðalvinnutungumáli starfsmanna Evrópusambandsins sem ekki deila sama tungumálinu. Sérstaklega eftir stækkun sambandsins í austur árið 2004 jókst vægi ensku sem vinnutungumáls. Tala meira en 51% íbúa sambandsins ensku sem fyrsta eða annað tungumál, en einungis 32% þýsku og 26% frönsku.

Þegar Bretland hefur gengið úr sambandinu verður enska einungis opinbert tungumál tveggja ríkja þess, Írlands og Möltu, en samanlagður íbúafjöldi þeirra er einungis rétt yfir 5 milljón manns.

Gæti misst lagalega stöðu sína

„Enska getur ekki verið lengur þriðja vinnutungumál evrópuþingsins“ setti Jean-Luc Mélenchon, franskur þingmaður á Evrópuþinginu á Twitter og „Enska tungumálið hefur ekki lengur neina löglega stöðu í Brussel,“ sagði Robert Ménard, bæjarstjóri í Frakklandi.

Evrópusambandið er með 24 opinber tungumál, sem öll njóta jafnrar stöðu innan sambandsins. En síðan eru þrjú óopinber vinnutungumál sem töluð eru af þremur stærstu meðlimum þess. Sérhver sem sækir um starf í sambandinu verður að tala eitt af þessum þremur ásamt því að kunna vel eitt annað af þessum 24 opinberu.

Í kjölfar úrsagnar Bretlands gæti enska misst stöðu sína enda tilnefnt til þess af breska ríkinu, svo í lagalegum skilningi þá gilti „Ef þú hefur ekki Bretland, þá hefurðu ekki ensku,“ sagði Danuta Hübner, nefndarformaður stjórnarskrármála á Evrópuþinginu.