Helstu vísar um stöðu mála á fasteignamarkaði gefa til kynna að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sé enn að dragast saman, að því er kemur fram í nýjustu mánaðarskýrslu HMS. „Kólnun á fasteignamarkaði þýðir þó ekki að hann sé frosinn eins og á árunum eftir hrun heldur virðast aðstæður líkari því sem var 2019 og 2020.“

Meðal vísa sem HMS bendir á að þessu sinni er fjöldi smella sem hver fasteignauglýsing fær, en hann hefur dregist umtalsvert saman „sem gefur til kynna að færri séu að leita sér að íbúð“.

Í byrjun febrúar, þegar framboð íbúða var í lágmarki, fékk hver auglýsing á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali 149 smelli á dag en í fyrri hluta nóvember var sú tala komin niður í 42.

Borið saman við sömu tímabil mismunandi ára sést þó að sögn HMS að þrátt fyrir að áhugi á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu fari minnkandi þá sé hann samt ekki mikið minni og á sama tíma árið 2020 og enn nokkuð meiri en hann var árið 2019.

Íbúðum til sölu fjölgaði um 12% á tveimur vikum

Fjöldi íbúða til sölu hefur aukist hratt á höfuðborgarsvæðinu í fyrri hluta nóvember eftir að hafa verið frekar stöðugur í október. Fjöldinn 1.317 í upphafi nóvember en þann 14. nóvember voru þær komnar í 1.470. Íbúðum til sölu fjölgaði því um 12% á fyrstu tveimur vikum nóvembermánaðar en aukningin í þessum mánuði er að mestu rakin til nýrra íbúða.

„Þá hefur framboðið rúmlega þrefaldast frá því að botninum var náð í byrjun febrúar síðastliðnum en mikill meirihluti þeirrar aukningar hefur orðið frá stýrivaxtahækkuninni í maí.“

Á síðustu sex mánuðum má rekja 30% af aukningu íbúða til sölu til nýrra íbúða. Aukið framboð er að mestu leyti tilkomið vegna lengri sölutíma.

Íbúðir sem seljast yfir ásettu verði fer ört fækkandi

Hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði hefur farið ört lækkandi frá því í júní síðastliðnum. Hlutfallið mældist 24,6% á höfuðborgarsvæðinu í október samanborið við 32,9% í september og 46,6% í júlí og hefur ekki mælst svo lágt síðan í október 2020. Þar af seldust 26,2% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði og 19,1% sérbýla.