Í dag var undirritaður raforkusamningur milli fyrirtækisins Becromal á Íslandi og Landsvirkjunar. Samningurinn tryggir Becromal kaup á 75 MW afli frá Landsvirkjun og fyrirtækið á kost á að auka kaupin í 100 MW síðar. Orkuþörf verksmiðjunnar verður um 640 GWh á ári í upphafi sem er um fimm sinnum meira rafmagn en Eyjafjarðarsvæðið notar árlega og samsvarar nálægt 10% aukingu í eigin raforkuframleiðslu Landsvirkjunar frá síðasta ári að því er kemur fram í tilkynningu.

Ekki reynist nauðsynlegt fyrir Landsvirkjun að virkja vegna þessarar orkusölu að sinni en með vaxandi notkun í landinu flýtir þetta fyrir þörfinni á framkvæmdum á því sviði. Í þessu sambandi verður flutningskerfi Landsnets á Norðurlandi styrkt til frambúðar á næstu árum vegna aukinnar raforkunotkunar þar.