Hlutfall þeirra sem kaupa fyrsta húsnæði hefur hækkað verulega undanfarin ár eftir hrun og var 20% af öllum kaupsamningum á útmánuðum 2015. Þetta kemur fram í samantekt sem Þjóðskrá Íslands tók saman fyrir Velferðarráðuneytið .

Fram kemur í samantektinni að fjöldi fyrstu kaupa hefur meira en tvöfaldast milli áranna 2008 og 2014 og ríflega fjórfaldast miðað við árið 2009. Fjölgun fyrstukaupasamninga hefur þó á eftirhrunsárunum tekið mun betur við sér á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, sérstaklega í Reykjavík. Þar hefur fjöldi fyrstukaupasamninga áttfaldast milli áranna 2009 og 2013.

Þjóðskrá Íslands tók saman gögn um fjölda þeirra er keyptu sitt fyrsta húsnæði frá árinu 2008 til 24. mars 2015. Á athugunartímabilinu voru gerðir 66.444 kaupsamningar á öllu landinu og voru 9040, eða 13,6%, vegna fyrstu íbúðarkaupa. Árin næst bankahruninu 2008, þegar fasteignaverð hafði hrunið um meira en 30% að raunvirði frá árunum fyrir bankahrunið, hafði orðið mikil fækkun samninga og var hlutfall fyrstu kaupa lægra en 10% árin 2008 og 2009.