Rúmlega 319 þúsund manns bjuggu hér á landi á miðju ári 2008, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Það eru tæplega átta þúsund fleiri íbúar en voru hér fyrir ári og er það næstmesta fjölgun íbúa á einu ári.

„Þessi mikla fjölgun stafar annars vegar, og að stærri hluta, af því að fjöldi aðfluttra var meiri en brottfluttra af landinu og hins vegar að fjöldi fæddra var vel umfram fjölda látinna," segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Um fjölda aðfluttra segir að á fyrri hluta yfirstandandi árs megi ætla að aðfluttir umfram brottflutta hafi verið um 4.600.

„Miðað við tölur Vinnumálastofnunar kom ríflega helmingur aðfluttra frá hinum nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins á fyrri hluta þessa árs, eða um 2.500 einstaklingar. Um 2.000 manns koma því annars staðar frá, bæði innan og utan ESB."