Mun fleiri konur starfa í bankageiranum hérlendis en karlar. Alls vinna þar 2.268 konur en 1.214 karlar. Um 65% af bankastarfsmönnum er því konur. Þeim fækkar hins vegar hraðar en körlunum. Stöðugildum kvenna innan fjármálafyrirtækja fækkaði um 145 á árinu 2010. Á sama tíma fækkaði körlum innan geirans um 43 talsins.

Fjöldi bankastarfsmanna
Fjöldi bankastarfsmanna
© vb.is (vb.is)
Konum hefur þó fækkað hlutfallslega minna en körlum innan banka og sparisjóða frá bankahruni. Rúmlega 32% færri konur vinna nú þar en í árslok 2007 en tæplega 38% færri karlar. Konur eru reyndar mun fleiri í hlutastörfum innan fjármálafyrirtækja en karlar. Af 326 stöðugildum sem flokkast sem hlutastarf eru konur í 279 þeirra. Þær eru því 85% hlutastarfsmanna.

Fleiri áföll á Íslandi

Fækkunin á Íslandi er hlutfallslega skarpari en á hinum Norðurlöndunum. Fjármálakreppan hefur þó ekki bitið jafn mikið á nágrönnum og okkur og bankakerfi þeirra eru af svipaðri stærð og þau voru fyrir bankahrun.

Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð fækkaði starfsmönnum innan banka og sparisjóða um 1,7%-4,2% á árinu 2009. Í Finnlandi fjölgaði starfsmönnum í bankageiranum hins vegar á sama tíma um tæp 2%. Það var eina Norðurlandið þar sem slík þróun átti sér stað.