Flestir, eða 37,7%, sögðust bera mikið traust til Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra í nýrri könnun MMR um traust almennings til forystufólks í stjórnmálum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MMR en þar er jafnframt vakin athygli á því að fjöldi þeirra sem segist bera mikið traust til Steingríms hefur vart mælst meiri en nú.

Næst flestir, eða 36,0% sögðust bera mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Þetta er nokkur breyting frá í febrúar síðast liðnum þegar 58,5% kváðust bera mikið traust til Jóhönnu.

Um 40% svarenda segjast bera lítið traust til þeirra Steingríms og Jóhönnu.

„Um leið hafa orðið þau tímamót í mælingum MMR á trausti til helstu leiðtoga stjórnmálanna, að forsetanum meðtöldum, að fleiri segjast bera lítið traust til þeirra allra en segjast bera mikið traust til þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Ólafur Ragnar Grímsson nýtur mikils trausts hjá 22,9% svarenda, en tæp 47,7% segjast bera lítið traust til forsetans. 19,4% sögðust bera mikið traust Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins og 18,3% sögðust bera mikið traust til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Á móti voru yfir 50% sem sögðust bera lítið traust til þeirra Sigmundar og Bjarna.

Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Borgarahreyfingarinnar var sögð njóta mikils trausts af 7,4% svarenda en 63,0% kváðust bera litið traust til hennar.

8,5% Sjálfstæðismanna segjast bera traust til Steingríms J.

Ef litið er til stuðnings við stjórnmálaflokka, má t.d. sjá að Steingrímur J. Sigfússon nýtur trausts meðal 93,2% þeirra sem segjast myndu kjósa Vinstri græna væri gengið til kosninga nú. Þá nýtur Steingrímur J. jafnframt traust 8,5% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Jóhanna Sigurðardóttir nýtur trausts meðal 82,9% stuðningsmanna Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýtur trausts meðal 67,1% Framsóknarmanna og Bjarni Benediktsson nýtur trausts meðal 60,1% sjálfstæðismanna.

Þegar spurt var um traust til Ólafs Ragnars Grímssonar voru það helst þeir sem á annað borð styðja Samfylkinguna sem sögðust bera mikið traust til Ólafs Ragnars, eða 39,5%. Þá nýtur Ólafur Ragnar minnst traust meðal þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn eða 9,9%.

Könnunin var framkvæmd dagana 9. – 14. september en alls svöruðu 909 manns.

Sjá könnun MMR.