Gengisvísitala íslensku krónunnar hefur styrkst mikið undanfarnar vikur. Við lok markaða á föstudag stóð gildi vísitölunnar í 109,77 en þann 21. febrúar síðastliðinn fór vísitalan í 109,56 stig samkvæmt opinberri gengisskráningu Seðlabankans. Þetta er lægsta opinbera gildi vísitölunnar síðan 5. júní árið 2000. Frá því vikmörk krónunnar voru afnumin af Seðlabankanum á árinu 2001 hefur krónan sveiflast töluvert spyr greiningardeild MP Fjárfestingabanka.

Í MP Molum kemur fram að vísitala krónunnar náði sínu hæsta gildi í lok nóvember árið 2001 en þá fór hún yfir 151 stig. Á sama tíma náði gengi dollarans hámarki gagnvart krónunni og fór yfir 110 krónur en við lok markaða á föstudag var gengi dollarans gagnvart krónunni rétt um 60,5 krónur. Þetta þýðir að á rétt rúmum þremur árum þá hefur gengi dollarans fallið um 45% gagnvart krónunni.

"Þessi mikla sveifla á krónunni kemur með einum eða öðrum hætti við budduna hjá flestum í þjóðfélaginu. Fyrirtæki hafa aukið erlenda skuldsetningu sína mikið á undanförnum 10 árum. Sterkari króna þýðir að erlendu skuldirnar minnka sem fram kemur þá í gengishagnaði fjármunaliða í ársreikningum fyrirtækjanna. Innflutningsfyrirtæki geta keypt vörur sínar ódýrar en ella sem ætti að skila sér áfram til neytenda á hagstæðari kjörum á innfluttum neysluvörum. Að sama skapi verða íslenskir ferðamenn erlendis ?ríkari" en ella og hafa sterkari kaupmátt erlendis. Það verður einnig að viðurkennast að óneitanlega virðist innflutningur á bandarískum bílum hafa aukist ef litið er á götur borgarinnar en dollarinn hefur veikst mun meir gagnvart krónunni en evran sem hefur þó veikst um 18% frá lok nóvember 2001," segir í MP Molum

Þar er einnig bent á að erlendar tekjur íslenskra fyrirtækja minnka með sterkari krónu. Sjávarútvegsgeirinn hefur iðulega látið í sér heyra þegar krónan hefur styrkst hratt og mikið þar sem tekjur af sjávarfangi erlendis minnka. Viðbúið er að við verðum vör við slíkar umræður á næstunni ef krónan heldur áfram að styrkjast. Sterkari króna dregur einnig úr ávöxtun erlendra verðbréfasafna íslenskra aðila. Ef við gefum okkur að fjárfestir hafi keypt bandarísk hlutabréf í lok árs 2001 þá hefðu undirliggjandi eignir þurft að skila um 45% ávöxtun (yield to date) yfir tímabilið til að ávöxtun safnsins væri ekki neikvæð, umreiknað yfir í íslenskar krónur.

Hvað er framundan?

"Vert er að huga að hvað sé framundan með þróun gengisvísitölunnar. Lægsta skráða gildi vísitölu krónunnar undanfarin áratug er 107,75 sem var í lok apríl árið 2000. Gildi vísitölunnar í dag er því óðfluga að nálgast fyrri lágmörk. Í fyrsta tölublaði Fjárstýringar á þessu ári var tekið viðtal við helstu gjaldeyrissérfræðinga viðskiptabankanna þriggja. Þeirra spá var sú að lægstu gildi vísitölunnar yrðu á bilinu 105-110 á þessu ári og er vísitalan því komin innan vikmarka þess sem spáð var. Fróðlegt verður að fylgjast með hvort sérfræðingarnir þrír hafi rétt fyrir sér eða hvort vísitalan brjóti ?100 stiga múrinn" og að við munum sjá enn fleiri nýja bandaríska bíla þegar líður á árið!," segir í MP Molum.

Byggt á MP Molum.