Getgátur eru uppi með það að Google muni fylgja fordæmi fjárfestisins Warren Buffett og ekki gefa út jöfnunarhlutabréf en gengi hlutabréfa félagsins er meðal 10 hæstu á bandaríska markaðinum. Gengi bréfanna hefur hækkað hratt síðan þau voru sett á markað í ágúst í fyrra og hefur gengið meira en þrefaldast í verði og er nú kringum 290 dollarar. Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að markaðsaðilar telji að hátt gengi geri bréfin óáhugaverð fyrir fjárfesta en stofnendur félagsins hafa svarað á móti að það komi sér vel fyrir markaðssetningu þeirra að geta bent vísað til hækkun gengisins til að sýna velgengi félagsins.

Warren Buffett hefur verið mjög andvígur útgáfu jöfnunarhlutabréfa og hefur fyrirtæki hans Berkshire Hathaway Inc. aldrei gefið út jöfnunarhlutabréf á meðan hann hefur verið við stjórnvölin. Einn hlutur af A tegund í félaginu kostar 84.125 dollara eða kringum 5,5 m.kr. Buffett heldur því fram að hátt gengi bréfa skili sér í stöðugra gengi því að færri hafi fjárhagslega getu til að kaupa þau. Hann vill laða að fjárfesta sem hugsi frekar til lengri tíma og einbeiti sér af undirliggjandi rekstri. Útgáfa jöfnunarhlutabréfa til að lækka gengi félagsins breytir engu varðandi reksturinn og er því óþarfa aðgerð aðeins til þess fallin að auka spákaupmennsku og verðflökt bréfanna að sögn Buffett's. Stofnendur Google hafa nefnt Buffett sem eina helstu fyrirmynd sína.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.