*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 17. nóvember 2020 19:24

Mun hafa áhrif á fjölda bótaþega

Hæstiréttur hefur fallist á beiðni félagsmanns í VR um áfrýjun í máli gegn atvinnuleysistryggingasjóði.

Jóhann Óli Eiðsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Hæstiréttur hefur fallist á beiðni félagsmanns í VR um áfrýjun í máli gegn atvinnuleysistryggingasjóði. Leyfið var veitt á þeim grundvelli að úrslit þess gætu skipt máli fyrir umtalsverðan fjölda bótaþega.

Málið teygir anga sína aftur til áramótanna 2015 en þá var almannatryggingalögum breytt á þann veg að tímabil atvinnuleysisbóta var stytt úr 36 mánuðum niður í 30 mánuði. Sú stytting var látin gilda þvert á línuna, það er hún tók líka til þeirra sem höfðu verið á bótum þegar breytingin tók gildi. Ríkinu var stefnt til viðurkenningar á því að slík skerðing væri óheimil. Varð það niðurstaðan með dómi Hæstaréttar sumarið 2017 en rétturinn taldi að með því hefði verið brotið gegn eignarréttindum og óskráðri meðalhófsreglu íslenskrar stjórnskipunar.

Þegar sú niðurstaða lá fyrir rétti ríkið hlut þess hóps sem dómurinn tók til. Þá varð hins vegar nýr ágreiningur um það hvort þær greiðslur ættu að bera skaðabótavexti, samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingu, eða dráttarvexti. Í héraði var komist að þeirri niðurstöðu að umþrætt ákvæði yrði ekki skýrt svo rúmt að ekki kæmi til greiðslu dráttarvaxta. Landsréttur sneri hins vegar þeim dómi við.

Ljóst er að verði niðurstöðunni snúið á ný í Hæstarétti mun það hafa áhrif á réttindi um tvö hundruð félagsmanna VR. Þá eigi það einnig við um talsverðan fjölda til viðbótar í öðrum stéttarfélögum. Að mati stefnenda eru engine fordæmi fyrir því að lagaákvæði sem kveði á um almenna vexti eigi einnig við um dráttarvexti.

„Einnig telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé rangur að efni til en rétturinn hafi litið framhjá mismunandi eðli almennra vaxta og dráttarvaxta og lagt þá að jöfnu. Telja þeir niðurstöðu héraðsdóms hafa falið í sér rétta nálgun en dómurinn hafi litið svo á að eftir að krafa félli í gjalddaga bæri hún ekki lengur almenna vexti heldur dráttarvexti,“ segir í leyfisbeiðninni.

Hæstiréttur féllst á beiðnina á grunni þess að málið gæti haft fordæmisgildi auk þess að ljóst væri að það myndi hafa talsverð áhrif út fyrir þetta staka mál.