Kaupþing á nú í viðræðum um kaup á hlut fjárfestingarsjóðsins Advent International í dönsku húsgagnaverslunarkeðjunni Ilva og stefnir að endurfjármögnun félagins, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins innan bankans. Advent keypti Ilva árið 2003 og er talið að kaupverðið, að skuldum meðtöldum, hafi verið um 60 milljónir punda, sem samsvarar rúmum 7,8 milljörðum króna.

Kaupþing sölutryggði lánsfjármögnun til að styðja við kaupin en áætlanir um útrás til Bretlands gengu ekki eftir þar sem lengri tíma tók að opna verslanir og tekjur voru undir væntingum, segja heimildarmenn blaðsins. Financial Times segir vandræði verslunarkeðjunnar undirstrika áhættu sem fylgir skuldsettum yfirtökum. Sérfræðingar benda á að skuldsettar yfirtökur hafi aukist verulega í Evrópu á síðustu árum, en enn sé þó sjaldgæft að slík kaup endi illa.

Ekki er talið að Kaupþing muni eiga hlutinn í Ilva lengi og búist er við að þegar sé farið að vinna í því að finna hugsanlega kaupendur að fyrirtækinu. Vangaveltur eru um að Baugur sé jafnvel hugsanlegur kaupandi, en fjárfestingarsjóðir hafa takamarkaða þolinmæði til að vinna að endurskipulagningu og uppbyggingu. Stefna Baugs hefur hins vegar verið að styðja við vöxt fyrirtækja sem félagið fjárfestir í.

Kaupþing hefur ráðið ráðgjafarfyrirtækið Alix Partners til að hafa umsjón með endurskipulagningunni en Ilva reiknaði með að opna 20 verslanir í Bretlandi á næstu tíu árum. Fyrirtækið hefur þegar opnað verslanir í Manchester, Gateshead og Thurrock, en fyrir rak Ilva þrjár verslanir í Danmörku og eina í Svíþjóð.

Hagnaður Ilva fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) var undir væntingum vegna útrásarinnar til Bretlands og stuðlaði að því að félagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar við Kaupþing og greitt af lánum, sem hengd voru á fyrirtækið til að fjármagna yfirtökuna.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að áætlað sé að lengja í lánunum til að að létta skuldabyrðina, en Advent vildi ekki auka hlutafé til að styðja við endurskipulagninguna. Kaupþing hefur ekki selt hluta lánsins til annarra banka á sambankalánamarkaði í Evrópu og þannig takmarkað áhættu sína.