„Ég sé um að tryggja að hráefnið sem kemur inn í landvinnslurnar sé í lagi og fari frá okkur eins og við og viðskiptavinir Samherja vilja hafa það. Ég hef síðustu tvö árin verið í gæðaeftirlitinu en nú bætist við ábyrgð mína að taka á móti kaupendum og úttektaraðilum og tryggja að við fylgjum gæðastöðlum eftir," segir Sunneva Ósk Guðmundsdóttir, nýr gæðastjóri landvinnslu Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa.

„Verkefni mín framundan verða svo að fylgja því eftir að vinnslan uppfylli kröfur og þá staðla sem við vinnum eftir, þar á meðal í nýrri landvinnslu sem Samherji er að opna á Dalvík í sumar. Þetta er stórt fyrirtæki og gaman að fara á milli starfsstöðva, en auk Dalvíkur og Akureyrar er fyrirtækið með rækjuvinnslu á Hólmavík og tvær hausaþurrkanir, auk alþjóðlegu starfseminnar."

Sunneva Ósk, faðir hennar sem og sambýlismaður hennar, Ómar Þorri Gunnlaugsson, eru öll sjávarútvegsfræðingar. „Ég er uppalin í Hafnarfirðinum, en við flytjum hingað á Akureyri þegar ég er 12 ára þegar pabbi er að klára sjávarútvegsfræðina. Ég var harðákveðin að flytja suður eftir menntaskóla en kom heim aftur eftir eitt ár, því það er gott að búa í litlu samfélagi.

Ég hafði svo sem ekki hugmynd um hvað ég vildi gera en námsráðgjafi í Háskólanum hér á Akureyri benti mér á hversu góður grunnur sjávarútvegsfræðin er, en hún er má segja viðskiptafræði að einum þriðja hluta, þriðjungur er um sjávarútveginn beint og þriðjungur raungreinar," segir Sunneva Ósk.

„Sjávarútvegurinn er vissulega karllægari en margar greinar, en það hefur verið virkilega vel tekið á móti mér hérna og hefur ekki skipt máli hvort karl eða kona eigi í hlut. Ég tók þó eftir þegar ég fór á sjávarútvegssýninguna í fyrsta skipti að það var talsvert lengri röð á karlaklósettið heldur en kvennaklósettið sem er ekki algeng sjón.

Námið var frábær undirbúningur en það var margt sem ég þurfti að læra þegar ég byrjaði að vinna og fékk ég til dæmis tækifæri til að fara á sjó, sem var alveg pínu sjokk í fyrsta sinn. Var ógeðslega sjóveik fyrstu dagana en ég er mjög þver og lét mig hafa það sem var dýrmæt reynsla enda þurfum við að fylgjast með gæðum hráefnisins alla leið."

Sunneva Ósk og Ómar Þorri eiga tvö börn. „Strákurinn minn er sex ára og stelpan er fjögurra ára en við höfum gaman af því að eyða gæðatíma saman, útiveru og ferðast. Svo má segja að okkar helsta áhugamál sé að taka húsnæði í gegn, en við höfum gert upp þrjár eignir á seinustu fimm árum samhliða því að eignast börnin og ljúka námi."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .