Utanríkisráðherra Makedóníu Nikola Dimitrov, greindi frá því í dag að stjórnvöld í landinu hyggjast skoða að breyta nafni landsins til þess að vinna gegn andstöðu Grikklands um inngöngu landsins í Atlandshafsbandalagið. Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Sagði Dimitrov að en væri of snemmt að ræða um möguleg nöfn en sagði að hann myndi funda með ríkisstjórn Grikklands í vikunni til að endurvekja traust á milli nágrannalandanna eftir að Grikkland beitti neitunarvaldi sínu á umsókn Makedóníu um að ganga í NATÓ árið 2008.

„Ég mun biðja gríska ráðamenn um að endurskoða hvers konar nágrannaþjóð þeir vilji eiga, hvort þeir vilji vinalega og stöðuga þjóð sem bjóði von um lýðræði og réttlæti" sagði Dimitrov í viðtali. Hann sagði einnig að ef landinu takist að vera góður nágranni muni grísk stjórnvöld vonandi átta sig á því að þau standi frammi fyrir sögulegu tækifæri.

Makedónía sem heitir formlega Lýðveldið Makedónía hefur lengi reitt Grikki til reiði með nafninu. Grikkir telja að nafnið gefi til kynna að landið Makedónía geri tilkall til héraðs í norður Grikklandi sem ber sama nafn. Það hjálpaði ástandinu heldur ekki neitt þegar fyrrverandi forsætisráðherra Makedóníu Nikola Gruevski ákvað að endurnefna flugvelli og hraðbrautir eftir grísku fornhetjunni Alexander mikla og teikna hann upp sem þjóðarhetju Makedóníu.