Franski bankinn Crédit Agricole skilaði 2,85 milljarða evra tapi á þriðja ársfjórðungi. Í frétt Financial Times segir að bankinn hafi tapað töluvert á sölu á grískum ríkisskuldabréfum og þá sé bankinn með töluverðar eignir í öðrum illa stöddum evruríkjum.

Crédit Agricole er stærsti viðskiptabanki Frakklands og sá þriðji stærsti miðað við markaðsvirði. Gengi hlutabréfa bankans féllu um 6% eftir að greint var frá afkomu bankans. Gengið er nú í kringum 5,60 evrur á hlut og er þó umtalsvert hærra en það var í maí þegar fjárfestar höfðu áhyggjur af því að Grikkland gæti hreinlega gengið af bankanum dauðum. Lægst fór gengi bréfanna í 2,97 evrur á hlut.

Afkoman var um einum milljarði evra verri en almennt hafði verið gert ráð fyrir og langt frá þeim 258 milljóna evra hagnaði sem bankinn skilaði á sama tímabili í fyrra.