Á árinu 2016 var lokið við að byggja um 1.500 íbúðir á landinu öllu, þar af um 1.200 á höfuðborgarsvæðinu. Framleiðslan er þrátt fyrir það minni en hefur verið að meðaltali á undanförnum 30 árum. Miðað við langtímameðal er staðan örlítið betri á höfuðborgarsvæðinu en fyrir landið í heild. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Hagfræðideildar Landsbankans.

Yfirleitt er talið að ljúka þurfi byggingu 1.800 til 2.000 íbúða á höfuðborgarsvæðinu til að svara þörfum vegna fólksfjölgunar og lýðfræðilegra breyta. „Það er því ljóst að mikið vantar upp á að því markmiði sé náð,“ segir þar.

Færri eignir til sölu

Einnig er bent á að frá árinu 2006 hafa aldrei færri eignir verið til sölu en nú. Það er því ekki einungis lítil byggingarstarfsemi sem framkallar þessa stöðu að mati Hagfræðideildar Landsbankans.

„Mikil ásókn leigufélaga inn á hefðbundinn kaup- og sölumarkað og útleiga húsnæðis til ferðamanna hafa líka mikil áhrif. Mikil kaupmáttaraukning síðustu missera hefur aukið möguleika margra til þess að kaupa sér húsnæði.

Tölurnar um framboð eigna sýna svart á hvítu að þar er umalgeran seljendamarkað að ræða vegna mikils skorts á framboði en auðvitað er mjög algengt að kaupandi sé einnig seljandi þegar fólk flytur sig um set,“ segir í greiningunni.

Að mati Hagfræðideildarinnar eru bestu upplýsingarnar um byggingarmagn á höfuðborgarsvæðinu að finna hjá Samtökum iðnaðarins sem hafa talið húsnæði í byggingu tvisvar á ári í nokkur ár. Samkvæmt þeim tölum hefur byggingarstarfsemi aukist nokkuð á síðustu árum. Að mati SI eru nú rúmlega 3.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Sjá fram á betri tíma

Einnig er tekið fram að samkvæmt spá SI um næstu ár má ætla að lokið verði að byggja 1.500 íbúðir á þessu ári, sem er ekki nóg til að fullnægja þörfum vegna fólksfjölgunar.

Hins vegar verður töluverð aukning á árunum 2018 til 2020 og tvö síðustu árin verði lokið að byggja u.þ.b. 2500 íbúðir, að því er kemur fram í tölum SI. Þá fyrst er útlit fyrir að bygjað verði að vinna á uppsafnaðri þörf síðustu ára, að mati Hagfræðideildarinnar.

Enn nokkur ár í land

Að lokum er tekið fram að af þessum tölum að dæma má vera ljóst að það séu enn nokkur ár í að jafnvægi náist milli framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaði. „Það eina sem gæti breytt þeirri stöðu að einhverju ráði væri stórminnkuð útleiga íbúða til ferðamanna, og sú staða er ekki beinlínis í kortunum,“ er tekið fram í greiningunni.

Afleiðingarnar verða því meðal annars þær að verðhækkanir á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu haldi áfram.