Með því að notast við stafræna lausn í ferðagjöf ríkisstjórnarinnar safnast „mikilvægar upplýsingar um neytendahegðun sem eru gríðarlega mikilvægar upplýsingar fyrir íslenska ferðaþjónustu.“ Þetta segir í umsögn Ferðamálstofu um frumvarp um ferðagjöf ríkisstjórnarinnar.

Meðal þeirra aðgerða sem stjórnin hyggst grípa til til að bregðast við skorti á erlendum ferðamönnum er að gefa hverjum og einum Íslendingi, átján ára og eldri, 5.000 króna gjafabréf sem hægt er að nýta hjá innlendum ferðaþjónustufyrirtækjum. Gjöfin verður gefin í gegnum þar til gert smáforrit sem þarf að nýta til að virkja gjöfina.

„Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna og rekstrarumhverfi hennar. Hvatning stjórnvalda til landsmanna um að ferðast innanlands og útgáfa ferðagjafarinnar er mikilvægt tækifæri til að efla innlenda ferðaþjónustu og draga úr því tjóni sem heimsfaraldurinn hefur haft á ferðaþjónustu hér á landi,“ segir í umsögn Ferðamálastofu.

Í umsögninni segir að líklegt sé að gjöfin til hvers og eins muni hafa snjóboltaáhrif. 5 þúsund krónur dugi vissulega skammt og gjöfin sé í raun táknræn. En einstaklingur sem nýtir bréfið muni að öllum líkindum kaupa þjónustu hjá öðrum fyrirtækjum sem ekki falla undir lögin.

„Um langa tíð hefur verið lítið vitað um neytendahegðun á innanlandsmarkaði en mun meiri upplýsingar eru til um neytendahegðun erlendra ferðamanna á Íslandi. Í Mælaborði ferðaþjónustunnar munu birtast í rauntíma ýmsar mikilvægar upplýsingar. Þannig verður til dæmis hægt að sjá hvar er verið að nota gjafab´refið, s.s. eftir landsvæðum, sveitarfélögum og í hvers konar þjónustu, greint eftir aldri, kyni o.þ.h.,“ segir í umsögninni.

Ferðamálastofa fagnar frumvarpinu og telur að það muni geta bjargað því sem bjargað verður.