Eitt þeirra verkefna sem blasir við ríkisstjórninni nú þegar hún vinnur að því að teikna upp umfangsmestu aðgerðir sem ráðist hefur verið í vegna efnahagsástands hér á landi er að koma til móts við óskir forráðamanna lífeyrissjóðanna um að þeir fái tryggingar fyrir því að breytingar verði gerðar á peningamálastefnunni og í gjaldmiðilsmálum landsins.

Breska blaðið Daily Telegraph heldur því fram að ríkisstjórnin sé að undirbúa styrkingu íslenska efnahagskerfisins um 10 milljarða evra eða um 1.600 milljarða íslenkra króna með erlendum lántökum og heimflutningi erlendra eigna lífeyrissjóða og banka.

„ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru sammála um að stöðugleika verði ekki náð með íslenskri krónu. Þau hafa lýst því yfir að breytingar í peningamálastefnu og gjaldmiðilsmálum séu forsenda fyrir vinnu að kjarasamningum,“ sagði viðmælandi Viðskiptablaðsins sem þekkir vel til mála. „Ef söfnunarsjóðir almennings eiga að greiða kostnaðinn af peningamálastefnunni þá hljóta forsvarsmenn þessara sjóða líka að geta gert kröfur um peningamálastefnuna og ákvarðanir henni tengdar.“

Talið er að stærstu liðir þeirra aðgerða sem nú eru í undirbúningi séu þrír: 1. Lífeyrissjóðirnir selji verulegan hluta erlendra eigna sinna og flytji til landsins. 2. Bankarnir geri slíkt hið sama. 3. Ríkissjóður/seðlabankinn þræði á þær lánalínur sem samið hefur verið um erlendis en ekki hafa verið nýttar. Einnig verði samið um frekari lántökur  ríkissjóðs og seðlabanka erlendis.

Þá er rætt um að gagnvart aðilum vinnumarkaðarins sé einnig leitað leiða til þess að framlengja kjarasamninga á vinnumarkaði allt til ársins 2010 - bæði á almennum vinnumarkaði og gagnvart starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga.

Loks snýr spurningin að aðgerðum í ríkisfjármálum. Forsendur þess fjárlagafrumvarps, sem fjármálaráðherra kynnti á miðvikudag í síðustu viku, eru taldar brostnar. M.a. tengist það hugsanlegum breytingum á peningamálastefnunni – auk þess hruns sem orðið hefur í efnahagslifinu frá því frumvarpið var sent til prentunar með 3,7% halla miðað við verga landsframleiðslu.

Nú er m.a. litið til þess að frumvarpið verði endurskoðað í því skyni að þegar í stað verði miðað við Maastricht skilyrðin um aðild að evrópska myntbandalaginu en samkvæmt þeim mætti hallinn ekki verða meiri en 3% af VLF á næsta ári.

Frumvarpið er nú komið til meðferðar í fjárlaganefnd og má búast við að gerðar verði róttækar breytingar á því í meðförum hennar – það ræðst þó ekki síst af því hvaða niðurstaða næst í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins, bæði hins almenna og forsvarsmenn verkalýðsfélaga opinberra starfsmanna.

Enn er alls óvíst hvenær aðgerðir ríkisstjórnarinnar líta dagsins ljós en ljóst er talið að hagsmuna hagkerfisins og íslensku viðskiptabankanna vegna verði fullmótaðar aðgerðir að hafa litið dagsins ljós eigi síðar en snemma í fyrramálið.

Alls staðar er nú fundað í stjórnkerfinu. Viðræður við bankakerfið eru á forræði Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Viðræður við aðila vinnumarkaðarins eru hins vegar í höndum Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Hann hefur kallað helstu samstarfsmenn sína úr Sjálfstæðisflokknum til fundar í ráðherrabústaðnum í dag. Talið er líklegt að það tengist því að nauðsynlegt þyki að gefa út yfirlýsingu um peningamálastefnuna.

„Á tímum eins og þessum getur aðeins einn maður talað fyrir íslensku þjóðina – og það er forsætisráðherra – sagði framámaður úr Sjálfstæðisflokknum við Viðskiptablaðið í dag,“ og nefndi að við aðstæður eins og þessar skipti fræðilegt sjálfstæði Seðlabanka Íslands í stjórnkerfinu engu máli. Nú væru heildarhagsmunir þjóðarinnar undir og forsætisráðherra hefði orðið fyrir hönd þjóðarinnar.

Það er einkennandi að þeir sem tjá sig við fjölmiðla í dag úr stjórnmálum og fjármálalífi standa aðeins utan við innsta hring. Þeir sem eru við fundarborðið með eigendum bankanna, ríkisstjórninni og lífeyrissjóðunum láta ekki ná í sig, enn sem komið er.

Rétt í þessu fór Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, út af fundi með Geir H. Haarde, forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum. „Auðvitað eru tímamörk – Þetta verður örugglega tilkynnt fyrir morgundaginn,“ var það eina sem Þorgerður vildi láta hafa eftir sér í samtölum við blaðamenn.