*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 14. janúar 2017 16:02

Mun sakna fólksins mest

Robert Cushman Barber hefur verið sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í liðlega tvö ár en nú líður brátt að heimför sendiherrans.

Pétur Gunnarsson
Robert C. Barber, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Robert Cushmann Barber, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, lýsir tímanum sem hann hefur eytt hér á landi sem „stórkostlegum“.

„Ég held að ég muni sakna mest fólksins hér á landi, þeirra hversdagslegu samskipta sem ég á við einstaklinga. Sama hvort það sé búðareigandinn á horninu, starfsmenn sendiráðsins eða fólkið sem ég hef fengið að kynnast í gegnum starf mitt,“ segir Barber. Sendiherrann segir þó að hann taki með sér fullt af góðum minningum og vonast til þess að koma aftur til landsins sem fyrst.

„Ég veit ekki nákvæmlega hvaða áhrif ég hef haft á landið, þar sem það er nánast ómögulegt að mæla það,“ segir Barber aðspurður. „En það sem ég vildi gera á meðan ég var á landinu var að tengjast sem flestum Íslendingum. Það hefur verið gífurlega gefandi að dvelja hér,“ bætir Barber við.

Sendiherrann segir að Íslendingar séu opnir og orkumiklir.

„Það sem ég hef tekið mest eftir í fari Íslendinga er hversu vinalegir, opnir og hreinskiptnir þeir eru. Sérhver einstaklingur er með mörg járn í eldinum, allir eru að gera spennandi og áhugaverða hluti. Það gæti einfaldlega verið í vatninu eða í DNA-inu hér. Hér býr áhugi og hugmyndaauðgi í fólkinu. Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að kynnast Íslendingum,“ segir Barber.

Sem lögfræðingur sem starfaði áður í opinbera geiranum, segir Barber að hann hafi viljað nýta sérfræðiþekkingu sína til þess að hjálpa nýjum fyrirtækjum og þá sérstaklega sprotafyrirtækjum við það að vaxa og dafna. „Ísland hentaði mér einstaklega vel. Þrátt fyrir að landið sé lítið, ef litið er til fólksfjölda, þá er það stærra þegar litið er til hugsunar og frumkvöðlaanda,“ tekur Barber fram.

Sorgmæddur yfir því að þurfa að fara

Þar sem Barber er pólitískt skipaður ráðherra yfirgefur hann landið á sama tíma og stjórnarskipti verða í Bandaríkjunum. „Ég er sendiherra sem hefur þó ekki haft það sem meginatvinnu að starfa í utanríkisþjónustu. Sumir kalla það „pólitískt skipaða sendiherra“. Margir af helstu sendiherrum Bandaríkjanna á heimssviðinu eru einmitt þeir sem eru ekki pólitískt skipaðir. Fyrirrennari minn, Luis Arreaga, er til marks um það. Á Íslandi hafa bæði verið atvinnusendiherrar og pólitískt skipaðir, svo það er ekkert mikil breyting á því nú. Lauslega áætlað þá eru um 70 prósent sendiherra Bandaríkjanna atvinnusendiherrar og vinna sig upp í gegnum utanríkisþjónustuna.

Venjan er að þeir sem eru pólitískt skipaðir sendiherrar láti af embætti á sama tíma og stjórnin sem að þeir starfa fyrir. Því er það eðlilegt að ég láti af störfum á sama tíma og forsetinn. Sem er í þessu tilviki 20. janúar á þessu ári, nánar tiltekið á hádegi. Svo það er það sem ég hef gert. Það var raunin þegar Bush-stjórnin hætti og það er þannig þegar Obama-stjórnin hættir. Þetta er hluti af stjórnarskiptum og hluti af hinu lýðræðislega ferli þegar ný ríkisstjórn tekur við,“ segir Barber

„Ég get einnig tekið fram að ég er stoltur að hafa tekið þátt í þessu ferli, þrátt fyrir að ég sé mjög sorgmæddur yfir því að þurfa að fara. En það er svona sem vald færist frá einum valdhafa til annars,“ bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.