„Við sjáum ekki fram á annað en að standast þessa erfiðu tíma, eins og okkur hefur tekist hingað til. Við höfum umtalsvert lausafé og stöndum skil á öllum skuldbindingum,“ segir Ólafur Teitur Guðnason, fjölmiðlafulltrúi Straums í samtali við Viðskiptablaðið.

Um fyrirhuguð kaup Straums á þremur dótturfélögum Landsbankans, sem horfið var frá vegna þjóðnýtingar þess síðarnefnda, segir Ólafur: „Það voru algjörlega brostnar forsendur fyrir þeim þegar svona fór fyrir Landsbankanum. Þessi félög störfuðu undir merkjum Landsbankans og því hafði fall hans strax töluverð áhrif á þau. Eitt þessara félaga var fryst, Bretlandshlutinn af því. Þannig að það var ekkert um annað að ræða.“

Spurður hvort önnur kaup séu fyrirhuguð, og þar af leiðandi áframhaldandi stækkun félagsins, segir Ólafur að forstjóri Straums, William Fall, hafi látið það út að nokkur minni verkefni séu í skoðun en það verði að „koma í ljós seinna“.