Evrópusambandið (ESB) mun taka hart á málefnum mannréttinda og málfrelsis á fundi með embættismönnum Rússlands í næstu viku í kjölfar harkalegra aðgerða lögreglu gegn mótmælendum þar í landi um helgina, segir í frétt International Herald Tribune.

Rússneska lögreglan handtók yfir 100 manns á sunnudaginn í St. Pétursborg og um 170 manns í Moskvu á laugardaginn og beitti kylfum í einhverjum tilfella. Meðal þeirra sem voru handteknir er fyrrum skákmeistarinn Garry Kasparov. Mótmælendurnir eru andstæðingar Vladimirs Pútíns, Rússlandsforseta, en kjörtímabil hans er nú að taka enda. Gagnrýnendur telja að ríkisstjórnin sé nú að reyna að þagga niður í andstæðingum hans með það að markmiði að tryggja að Pútín geti skipað sér eftirmann vandræðalaust, að því er kemur fram í fréttinni.

Talsmaður sambandsins, Christiane Hohmann, segir að framkvæmdarstjórnin hafi miklar áhyggjur vegna aðgerða lögreglunnar. "Málfrelsi og fundarfrelsi eru mjög mikilvæg gildi sem Rússland hefur samið um við Sameinuðu þjóðirnar og við Evrópuráðið," segir Hohmann. Hún segir sérstaklega mikilvægt að virða þessi málefni í aðdraganda kosninganna í Rússlandi og að Evrópusambandið muni leggja mikla áherslu þar á. Hún sagðist þá búast við því að ráðherrar aðildarríkjanna muni bera málefnið upp við rússneska embættismenn á fundi þeirra á milli í Lúxemburg í næstu viku.