Þótt margir bindi vonir við að markaðir muni rétta úr kútnum á miðvikudaginn þegar leiðtogar evruríkjanna koma saman á sérstökum aukafundi og leggja fram áætlun um hvernig bjarga megi evrunni og skuldsettum evruríkjum er margir efins um að sú áætlun sem kynnt verður dugi til þess að róa markaði.

"Ef það, sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum verður hin endanlega niðurstaða þá mun það ekki vera nóg til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi árasir eins og t.d. á ríkisskuldabréf Ítalíu eins og menn sáu fyrr á þessu ári," segir Thomas Thygesen hjá SEB í samtali við Börsen.

Sérfræðingar Danske Bank taka í svipaða streng og segja í nýrri greiningarskýrslu að enn sé langt í land. "Þrátt fyrir að lögð verði fram björgunaráætlun á miðvikudaginn þá mun það ekki marka endalok kreppunnar," segir í skýrslunni.