Á síðasta ári voru heildarlaun forstjóra og aðalframkvæmdastjóra fyrirtækja að meðaltali 1.620 þúsundir króna en næstir á eftir þeim komu dómarar með 1.442 þúsund krónur að því er fram kemur í lista Hagstofunnar yfir laun eftir starfsstéttum. Heildarlaun í sérfræðistörfum við lækningar námu síðan 1.428 þúsund krónum að meðaltali en í störfum við ráðgjöf og sölu verðbréfa voru meðallaunin 1.426 þúsund krónur.

Lægstu launin voru hins vegar í störfum við barnagæslu, þar sem þau voru að meðaltali 340 þúsund krónur á mánuði og 359 þúsund krónur í skrifstofustörfum við bóka- og skjalavörslu. Það þýðir að munurinn á hæstu og lægstu laununum samsvarar 1.280 þúsund krónum.

Þónokkur munur er á milli starfa eftir því hvernig samsetning launanna er á milli grunn- og heildarlauna. til að mynda er lítill munur við kennslu á yngsta stigi og störfum við kennslu á yngsta stigi og störfum við barnagæslu, en munurinn er meiri í störfum á borð við flugumsjón og lækningar.

Að meðaltali fengu launamenn í fullu starfi greiddar 184,7 stundir á mánuði árið 2016, en flestar stundir féllu í hlut vöru- og flutningabílstjóra eða 223,9 stundir. Næst flestar voru svo í sérfræðistörfum við lækningar eða 221,5 stundir.