Verktakafyrirtækið Munck á Íslandi var rekið með 803 milljóna króna tapi á síðasta rekstrarári sem lauk í september 2019. Félagið hóf starfsemi í byrjun árs 2017 eftir að danska félagið Munck Gruppen keypti verktakafyrirtækið LNS Sögu hér á landi. Síðan þá hefur samanlagt tap Munck á Íslandi numið um 4,5 milljörðum króna. Forsvarsmenn félagsins hafa sagt að boðið hafi verið of lágt í verk hér á landi og því hafi reksturinn ekki staðið undir sér.

Markvisst hafi verið farið í að draga úr umsvifum félagsins vegna þessa. Veltan dróst saman úr 7,4 milljörðum króna í 5,8 milljarða króna milli rekstraráranna 2017/2018 og 2018/2019. Á sama tímabili lækkaði rekstrarkostnaður úr 9,3 milljörðum í 6,4 milljarða króna. Stöðugildum fækkaði úr 186 í 101 og launakostnaður lækkaði úr 2,2 milljörðum króna í 1,4 milljarða króna.

Í ársreikningnum segir að vafi sé um rekstrarhæfi félagsins. Bæði hafi hreint veltufé og eigið fé félagsins verið neikvætt um tæplega 1,2 milljarða króna í lok reikningsársins. Eignir félagsins námu 2,9 milljörðum króna, skuldir 3,1 milljarði króna, en þar af var skuld við móðurfélagið um 1,4 milljarðar króna.