Orri Hauksson, forstjóri Símans, hefur ýmislegt að athuga við drög Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) að markaðsgreiningu fyrir ákveðna þætti fjarskiptamarkaðarins. Fyrirhugað er að auka kvaðir á Mílu frá því sem verið hefur.

„Nái vilji PFS fram að ganga mun tvífjárfestingum á höfuðborgarsvæðinu fjölga en draga mun úr hvata til fjárfestinga á landsbyggðinni. Ef notaðar verða þær nýju kvaðir sem PFS leggur til á Símasamstæðuna mun það ýkja enn meira upp muninn milli svæða og gera neytendum á landsbyggðinni enn erfiðara fyrir, bæði varðandi ljósleiðara heim í hús og uppbyggingu 5G, en slíkir sendar tengjast almennt ljósleiðara.

Samstæðan mun auðvitað áfram að fjárfesta eingöngu í verkefnum sem eru arðsöm og ef verkefni á landsbyggðinni verða gerð óarðbær með nýjum kvöðrum detta þau út af hálfu samstæðu sem skráð er á hlutabréfamarkað. Fáir hafa sýnt landsbyggðinni áhuga í þessum efnum og sá innviðaskortur sem mun ríkja á vissum svæðum á landinu mun þá væntanlega þurfa að vera dekkaður af neytendum landsbyggðarinnar eða hinu opinbera,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Að mati Orra er ýmislegt við drögin að athuga. Bendir hann á að PFS telji að sama markaðsgerð og reglustýring eigi að gilda á landinu öllu þrátt fyrir að nokkur aðstöðumunur geti verið þar á milli. Nægir þar að nefna að víða á landsbyggðinni liggur aðeins ein kopartaug að heimili á meðan heimili á suðvesturhorninu býr við tvær ljósleiðarataugar auk gamallar koparleiðslu. Að mati PFS væri afar flókið og tímafrekt að gera greinarmun þarna á milli og skipta landinu upp eftir svæðum.

„Þrátt fyrir snaraukna útbreiðslu innviða frá öðrum en Mílu til stórs hluta þjóðarinnar og mikil gæði fjarskiptalausna í stórum hluta landsins, sem PFS segir að muni á næstu misserum ná til 90% heimila landsins, fullyrðir stofnunin samt að samkeppni skorti og muni skorta í heildsölu og smásölu á fjarskiptalausnum. Þetta er ótrúleg þversögn. GR er markaðsráðandi í ljósheimtaugum á suðvesturhorninu og markaðsráðandi í heimtaugum almennt á höfuðborgarsvæðinu. Í því samhengi má einnig að hafa í huga að hlutdeild Símans í smásölu á svæði GR er samkvæmt PFS minna en 40%, en samt telur PFS nær enga samkeppni í fjarskiptum,“ segir Orri.

„Drögin bera með sér að PFS hyggist fara í þveröfuga átt við þá línu sem kemur frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og leggja algerlega nýjar kvaðir á Símasamstæðuna frá því sem var þegar markaðshlutdeild hennar var mun meiri. Þannig hyggst stofnunin auka ósamhverfuna í kvöðum, í stað þess að minnka eða jafna kvaðir eins og þróunin er í öðrum löndum. PFS hyggst einnig minnka möguleika á samnýtingu innviða, en þvert á móti vill ESB hvetja til slíkrar samnýtingar hráinnviða, þar sem það á við, en að samkeppnin fari þá frekar fram í tækninni þar ofan á,“ segir Orri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .