Kristín Þorsteinsdóttir aðalritstjóri fréttastofu 365 segir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem dæmdi fyrr í dag ummæli fjögurra fréttamanna fréttastofunnar dauð og ómerk, koma sér mjög á óvart.

„Ég er mjög sorgmædd yfir að þessi dómur hafi farið á þennan veg segir Kristín,“ en dómurinn fjallaði um fréttaflutning af svokölluðu Hlíðamáli þar sem Fréttablaðið greindi frá meintri nauðgun í íbúð í Hlíðunum sem var sögð útbúin sérstaklega til nauðgana.

„Ég lít svo á að þarna sé verið að takmarka upplýsingar um rannsóknir í nauðgunarmálum og mér finnst það vera enn ein atlagan að fjölmiðlafrelsi í landinu.“ Aðspurð segist hún að 365 muni áfrýja dómnum.

Í fréttum blaðsins voru tveir menn sakaðir um verknaðinn en öllum kærum á þeirra hendur var vísað frá. Kærðu mennirnir blaðamennina fjóra, það eru þau Nadine Guðrúnu Yaghi, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, Þórhildi Þorkelsdóttur og Heimi Má Pétursson að því er Vísir greinir frá.

Kröfðust mennirnir að hvor um sig fengi um 12 og hálfa milljón í miskabætur vegna ærumeiðandi ummæla blaðamannanna, en niðurstaða dómsins hljóðaði upp á talsvert lægri miskabætur.

Þarf Guðrún Yaghi að greiða hæstu bæturnar, eða 700 þúsund til hvors um sig, Þóhildur þarf að greiða öðrum 100 þúsund en hinum 200 þúsund en Heimir Már og Stefán Rafn eru dæmd til að greiða hvorum fyrir sig 50 þúsund krónur.

Kristín segist ekki geta sagt til um það hvort 365 miðlar muni axla ábyrgð á sektargreiðslunum eða málskostnaði blaðamannanna. „Ég get bara sagt að ég skil ekki þessa niðurstöðu.“