Búist er við að ný orkustefna verði kynnt í Bretlandi í næstu viku. Samkvæmt frétt Reuters hefur hækkandi verð á olíu og gasi og efasemdir um að Rússar geti staðið við samninga um afhendingu á gasi, leitt til þess að Bretar íhugi að endurmeta kolavinnslu í landinu.

Kolavinnsla blómstraði í Norður- Englandi fyrr á árum, en námum þar var lokað í kjölfar olíuævintýris Breta í Norðursjó og gasvinnslu þar á tíunda áratug síðustu aldar. Kol þóttu þá ekki lengur samkeppnishæfur orkugjafi og var námunum lokað hverri af annarri. Í ljósi hækkandi verðs á heimsmarkaði á olíu og gasi samfara áhyggjum af getu Gazprom í Rússlandi til að tryggja afhendingu á gasi til Vestur-Evrópu, hefur áhugi á kolum vaknað að nýju. Er áhugi erlendra fjárfesta einkum sagður vera farinn að drífa áfram hugmyndir um að hefja kolavinnslu að nýju í Englandi.