Aðildarríki Opec munu ekki draga úr olíuframleiðslu þrátt fyrir áframhaldandi verðlækkun í síðustu viku. BBC News greinir frá þessu.

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði um meira en 10% í síðustu viku og kostaði tunnan af Brent Norðursjávarolíu minna en 62 dollara síðastliðinn föstudag. Hafa lægri verð ekki sést í meira en fimm ár.

Í síðasta mánuði hittust fulltrúar aðildarríka Opec til þess að ræða stöðuna á heimsmarkaði. Var þá ákveðið að aðhafast ekkert í málinu, en búist hafði verið við því að ríkin myndu draga úr framleiðslu til þess að halda verðinu uppi.

Abdallah Salem el-Badri, framkvæmdastjóri Opec, segir samtökin standa við þessa ákvörðun sína. „Ákvörðunin hefur verið tekin. Hlutirnir verða eins og þeir eru.“