Þátt fyrir að stjórnvöld hafi ekki efnt fyrirheit um auknar fjárfestingar og hvorki verðbólgu- né gengisforsenda hafi staðist telja forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins ekki til góðs að opna kjarasamninga aftur í janúar. Þetta kom fram á fundi þeirra Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, og Vilmundar Jósefssonar, formanni SA, með fjölmiðlum í dag þar sem þeir fóru yfir forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Vilmundur sagðist á fundinum tilbúinn til að ræða við forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar um aukinn kaupmátt án beinna launahækkana. „Við þurfum að vinna ráð til að auka kaupmátt með öðrum leiðum en launahækkunum sem hlaupa beint út í verðlagið,“ sagði Vilmundur. Fram kom á fundinum að afgerandi líkur væru á að kaupmáttarmarkmið kjarasamninga náist á samningstímanum.

Launahækkanir skila litlum árangri

Aðspurður hvaða leiðum megi beita til að auka kaupmátt án launahækkana sagði Vilmundur samræður hafa verið á milli samningsaðila um að leita nýrra leiða til að semja um launakjör. Núverandi fyrirkomulag gangi illa. „Það er alltaf verið að reyna að ná háu tölunum,“ sagði Vilhjálmur Egilsson og vísaði til launahækkana. „En það framkallar verðbólgu svo að við fáum ekkert út úr því,“ bætti hann við.

Í janúar er komið að endurskoðun kjarasamninga. Vilji annar samningsaðila ekki að samningurinn haldi gildi sínu ber viðkomandi að skýra frá þeirri ákvörðun og rökstyðja hana. Samningurinn fellur þá úr gildi frá janúarlokum og felur það meðal annars í sér að umsamdar launahækkanir í febrúar taka ekki gildi. Skýrt kom fram að hálfu Samtaka atvinnulífsins að þau muni ekki eiga frumkvæði að opnun samninganna sem annars gilda til janúar 2014.