Þrjár tillögur varðandi drög stjórnarskrárnefndar sem lagðar höfðu verið fyrir kjósendur í netkosningakerfi Pírata hafa nú verið felldar. Kosið var um drög nefndarinnar sem lúta að þjóðaratkvæðagreiðslum, nátturu og umhverfi, og auðlindum í þjóðareign.

Stjórnmálaflokkurinn Píratar býður flokksfélögum sínum upp á að kjósa lýðræðislega um hvað þingflokkurinn fjallar og styður á þingi. Ályktanir um að þingflokkur Pírata styddi fyrrnefnd drög að frumvarpi stjórnarskrárnefndar til þinglegrar meðferðar voru þá felld með atkvæðagreiðslu.

Í tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu voru 43,5% kjósenda fylgjandi stuðningi þingflokksins, meðan 56,5% kusu á móti honum. Þegar kom að umhverfislið stjórnarskrárnefndar voru 40% samþykkir og 60% andsnúnir, og hvað auðlindanýtingu þjóðarinnar varðar voru 36,9% fylgjandi móti 63,1% andsnúnum.

Samtals voru greidd 523 atkvæði í kosningunum um málin þrjú, eða rétt rúmlega 170 atkvæði á hvern málalið.

Vakin skal athygli á því að atkvæðagreiðslan snerist um hvort Píratar ættu að gera það að frumvörp stjórnarskrárnefndar fái þinglega meðferð að baráttumáli flokksins, og lýsir ekki endilega hvort flokkurinn styðji drögin sem slík eður ei.

Þá mun flokkurinn ekki beita sér sjálfur fyrir því að drögin fái þinglega meðferð, en komi til þess að aðrir flokkar ákveði að bera þau upp munu Píratar ekki heldur beita sér gegn því að þau fái þinglega meðferð.