Svo gæti farið að 737 Max faþegaþoturnar frá Boeing snúi aftur í háloftin í sumar, en eins og mikið hefur verið fjallað um þá voru þoturnar kyrrsettar í kjölfar tveggja mannskæðra slysa. Það mun hins vegar vera ærið verkefni fyrir Boeing að endurheimta traust neytenda og segir WSJ að um sé að ræða eina stærstu áskorun aðila innan fluggeirans í marga áratugi, hvað varðar málefni neytenda.

Viðbrögð Boeing við þessu máli hafa verið gagnrýnd þó nokkuð, þá aðallega vegna skorts á gagnsæi við meðferð málsins. Er þetta sagt hafa grafið undan trausti fólks til flugvélaframleiðandans.

Talað hefur verið um að kyrrsetningu 737 Max flugvélanna verði mögulega aflétt í næsta mánuði, en samkvæmt WSJ eru meiri líkur á að vélarnar verði aftur komnar í loftið í lok sumars.

Geislalæknirinn Lance White, sem flýgur mikið á ári hverju, segist ekki hafa neinn áhuga á að fljúga með 737 Max þotunum þegar þeim verður heimilt að fljúga á ný.

„Ég veit ekki hvort það sé nokkuð sem Boeing getur gert til þess að endurheimta traust mitt til þessara véla,“ segir hann. Þá segir hann að hann myndi vilja sjá 737 Max þoturnar fljúga í að minnsta kosti í fimm ár án þess að lenda í slysi, áður en hann myndi íhuga að ferðast með slíkri vél.