Tryggingafélögin, Sjóvá, TM og VÍS, högnuðust samanlagt um 4.813 milljónir króna í fyrra. Árið 2013 nam samanlagður hagnaður þeirra 6.281 milljónum króna sem þýðir að hagnaðurinn dróst saman um 1.468 milljónir króna milli ára eða ríflega 23%. TM skilaði mestum hagnaði eða 2.074 milljónum, VÍS hagnaðist um 1.710 milljónir og Sjóvá um 1.029 milljónir.

Stefán Broddi Guðjónsson, hjá greiningardeild Arion banka, segir að í ljósi tíðarfars hafi flestir átt von á slakri afkomu af tryggingarekstri en góðri afomu af fjárfesingarstarfsemi enda hafi eignamarkaðir verið hagstæðir í lok síðasta árs.

„Í raun var tryggingaafkoma ívið betri en ég átti von á og rekstrarkostnaður lægri,“ segir Stefán Broddi. „Afkoma af fjárfestingastarfsemi var hins vegar hagfelld eins og við var búist.“

Stefán Broddi segir að tíðindi af arðgreiðslum og fjármagnsskipan hafi vakið mesta athygli. „Það hefur verið vitað að félögin gætu greitt út arð sem væri mun hærri en sem nemur hagnaði ársins. Það er hins vegar að raungerast fyrr en ég reiknaði með og útlit er fyrir TM, Sjóvá og VÍS muni greiða 11 til 19% af markaðsvirði í arð, auk þess að halda áfram að kaupa eigin bréf. Þá hefur TM í hyggju að gefa út víkjandi skuldabréf sem gefur enn frekar færi á óvenju háum arðgreiðslum á komandi árum og ekkert því til fyrirstöðu að VÍS og Sjóvá geri slíkt hið sama.“

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .