*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 2. nóvember 2011 18:03

Munu kjósa um aðild að evrusvæðinu

Financial Times hefur eftir heimildarmönnum í stjórnkerfinu að þjóðaratkvæðagreiðslan muni snúast um aðild að ESB.

Ritstjórn

Spurningin, sem lögð verður fyrir gríska kjósendur í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu, mun ekki snúast um björgunaráætlun ESB og aðhaldsaðgerðir grísku stjórnarinnar, eins og hingað til hefur verið gert ráð fyrir. Þess í stað verða kjósendur beðnir um að taka afstöðu til aðildar grikklands að Evrópusambandinu og evrusvæðinu. Þetta hefur Financial Times eftir heimildarmönnum í gríska stjórnarflokknum Pasok.

Stjórnin stefnir að því að halda atkvæðagreiðsluna um miðjan desembermánuð, en það mun þó aðeins gerast að því gefnu að stjórnin lifi af vantraustsatkvæðagreiðslu í gríska þinginu á föstudag. Ákvörðun gríska forsætisráðherrans, George Papandreou, um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu hefur valdið uppnámi á mörkuðum og af þeim sökum var hætt við þriggja milljarða evra skuldabréfaútboð á vegum björgunarsjóðs ESB. Í ljósi þess að nýjasta björgunaráætlunin gerir ráð fyrir því að stækka björgunarsjóðinn í 1.000 milljarða evra vekur það ákveðnar áhyggjur meðal fjárfesta að hann hafi þurft að hætta við þriggja milljarða evra útboð.

Stikkorð: Grikkland