Seðlabanki Íslands lækkaði í gærmorgun stýrivexti í fyrsta skiptið síðan í desember 2014. Vextirnir voru lækkaðir um hálft prósentustig niður í 5,25% eftir að hafa verið 5,75% frá því í nóvember í fyrra.

Ein helsta ástæða vaxtalækkunarinnar er sú staðreynd að verðbólga hefur lengi haldist undir markmiði þrátt fyrir miklar launahækkanir og aukna framleiðsluspennu. Viðskiptakjarabati, lítil alþjóðleg verðbólga, aðhaldssöm peningastefna og hækkun gengis krónunnar hafa vegið á móti áhrifum launahækkana á verðlag að sögn peningastefnunefndar.

Á blaðamannafundi í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar lagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri mikla áherslu á þátt peningastefnunnar í lágri verðbólgu.

„Við höfum vísbendingar um að peningastefnan hafi náð meiri árangri undanfarið en vænst var fyrr á þessu ári og því er útlit fyrir að hægt verði að halda verðbólgu við markmið við lægri vexti en áður var talið,“ sagði Már. Hann lagði í kjölfarið áherslu á að næsta vaxtaákvörðun myndi ráðast af efnahagsþróun og því hvernig tekst til við losun fjármagnshafta.

Enginn lært að verðbólga sé óháð peningastefnu

Már benti einnig á að verðbólguvæntingar hefðu undanfarin missiri hnigið í átt að verðbólgumarkmiðum og telur það merki um aukinn trúverðugleika peningastefnunnar.

„Með trúverðugleika peningastefnunnar eigum við bara við eitt: Að allir trúi því að til lengdar munum við gera það sem þarf og vaða eld og brennistein og ekki hlusta á neinn til þess að verðbólgan haldist við markmið. En við munum aldrei gera meira en það,“ sagði Már. Ítrekaði hann í kjölfarið mikilvægi peningastefnunnar.

„Hagfræðingarnir sem hér eru inni hafa enga hagfræði lært sem segir þeim að verðbólga sé óháð peningastefnu til lengdar,“ sagði Már. Minna aðhaldssöm peningastefna hefði líklega leitt til hærri verðbólgu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .