*

sunnudagur, 20. september 2020
Innlent 14. nóvember 2016 14:04

Munu vextir lækka?

Greiningardeild Arion banka fer yfir vísbendingar þess að vaxtastig muni fara lækkandi þegar fram sækir.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Greiningardeild Arion banka telur þá upp vísbendingar sem benda að mestu leyti til þess að vaxtastig muni fara lækkandi þegar fram í sækir, en þó er óvíst um að það gerist í bráð að mati Greiningardeildarinnar. Þættirnir sem Greiningardeildin bendir á er meðal annars að; Verðbólguvæntingar hafa lækkað, það að hagstæð skuldastaða lækki áhættuálag, það að þjóðin eldist og að sparnaður á Íslandi eykst, að hægja tekur á fólksfjölgun hérlendis og að lokum að framleiðnivöxtur sé hægur hér á landi. Hægt er að sjá ítarlega greiningu á málinu hér.

Mikil umræða hefur verið um það hversu lágir vextir eru á heimsvísu — bæði raunvextir og nafnvextir. Greiningardeild Arion banka fer yfir víðan völl í umfjöllun um ástæður þessa. Þar kemur meðal annars fram að: „Sumstaðar eru nafnvextir orðnir neikvæðir sem þýðir að lánveitendur borga fyrir að fá að lána peningana sína, á meðan lántakendur eins og ríki fá beinlínis greitt fyrir að skuldsetja sig. Þessi þróun er á öndverðu við það sem hefur verið kennt í hagfræði víða um heim svo ýmsir stjórnmála-, embættis- og fræðimenn hafa klórað sér hressilega í kollinum síðustu misseri.“

Í greiningu Arion er tekið fram að ástæður lækkandi vaxtastigs er hægt að skipta upp í tvennt; Annars vegar er hægt að tengja hana við lausa peningastefnu í mörgum iðnríkjum samhliða magnbundinni íhlutun í massavís. Hins vegar þá er hægt að benda á að lækkun stýrivaxta og ávöxtunarkröfu skuldabréfa séu eðlileg viðbrögð við undirliggjandi þróun í heiminum, þ.m.t. hægari framleiðnivexti, hægari fólksfjölgun og miklum sparnaði.

„Þó ekki sé fullljóst hvað veldur þróun síðustu ára er margt sem bendir til þess að hluti skýringanna felist í þróun undirliggjandi krafta í hagkerfum heimsins. En hvernig er þróun þeirra hér á landi? Eins og farið er yfir hér á eftir eru ýmsar vísbendingar sem hníga að því að raunvaxtastig á Íslandi fari lækkandi horft til framtíðar, þó að horfurnar til skamms tíma séu mun tvísýnni, einkum hvað varðar nafnvexti,“ segir í greiningu bankans.

Eins og kemur fram að hagstæðar efnahagshorfur og mikil fjárfestingarþörf haldi uppi vaxtastigi á Íslandi. „Í fyrsta lagi er talsverð framleiðsluspenna í hagkerfinu um þessar mundir sem bæði getur ýtt undir verðbólguþrýsting og gerir það að verkum að Seðlabankinn kýs að stefna á hærra raunvaxtastig en ella. Í öðru lagi er síður en svo lítið af fjárfestingartækifærum og víða stefnir í mikla uppbyggingu, sem eykur eftirspurn eftir fjármagni sem stuðlar að hærri vöxtum en ella. Krafturinn í hagkerfinu um þessar mundir gæti því leitt til þess að lægri vextir á Íslandi verði músík sem í bili heyrist eingöngu í fjarska,“ segir að lokum í greiningu bankans.

Stikkorð: Arion banki Vextir greining lækka vaxtastig