Englandsbanki mun sennilega ekki spá fyrir um næstu fjármálakreppu, enda geta hagspár aldrei verið mjög nákvæmar og allra síst um hið óvænta. Þetta voru ein helstu skilaboð yfirstjórnar Englandsbanka til fjárlaganefndar breska þingsins á þriðjudag, en hún kallaði bankamennina á sinn fund.

Englandsbanki var ekki frekar en aðrir viðbúinn alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008, sem flest Vesturlönd eru enn að súpa seyðið af. Spár hans um framvindu í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum reyndust kolrangar, ekki aðeins blindan og bjartsýnin í bólunni, heldur einnig alltof mikil svartsýni um eftirleikinn. Af þeim ástæðum hefur bankinn lagt allt kapp á að bæta sig í þessum efnum, ráðið til sín marga sérfræðinga og veitt mikið fé til þess að búa til ný og betri spálíkön, stóraukið gagnasöfnun og beitt nýjum greiningaraðferðum til þess að geta séð framtíðina betur fyrir.

Óvenjuleg hreinskilni

Allt hefur þó komið fyrir ekki, eins og berlega kom í ljós í kringum Brexit-kosningarnar, þar sem horfur bankans reyndust ekki í góðu samræmi við raunveruleikann og hrakspár um afleiðingar úrgöngu hafa alls ekki staðist, öðru nær. Englandsbankamenn virðast því hafa sætt sig við að þeir geti ekki frekar en aðrir spáð fyrir um framtíðina af neinni nákvæmni, en hið óvenjulega er hreinskilni þeirra um það við þingið.

„Ég get ekki verið fullviss um neina spá,“ sagði Gertjan Vlieghe, sem situr í peningastefnunefnd bankans. Spálíkönin gætu aldrei verið fullkomin, alveg óháð því hvað menn hefðu mikið af gögnum og greindu þau fínt. Menn gætu í besta falli reynt að meta líkur á tilteknum niðurstöðum og skyldu varast að hafa oftrú á þeim. „Við eigum áfram eftir að sitja uppi með miklar spáskekkjur, við munum sennilega ekki spá fyrir um næstu fjármálakreppu, né munum við spá fyrir um næsta efnahagssamdrátt — spálíkönin eru bara ekki nógu góð til þess,“ játaði Vlieghe við frekar lítið hressa þingmennina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.