Daniel Hannan er Evrópuþingmaður breska Íhaldsflokksins en hann hefur í gegnum árin margoft komið hingað til lands ásamt því að vísa óspart á gott gengi Íslands utan Evrópusambandsins í baráttu sinni fyrir útgöngu lands síns úr sambandinu.

Eins og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu segir Hannan að Schengen svæðið hafi verið gert gersamlega marklaust því það búi til slæma hvata sem smyglarar og þeir sem vilja flytja til ríkari landa nýta sér, oft á kostnað raunverulegra flóttamanna.

„Dyflinnarreglugerðin, sem er mjög skynsamlegt kerfi, segir að vilji einhver sækja um hæli, þá þarf hann að gera það í fyrsta ríkinu sem hann kemur að. Það er fullkomlega eðlilegt, þar sem markmið flóttamanns er að komast út úr ákveðnu landi, ekki að fara inn í ákveðið land.

Það er munur á því að vera flóttamaður og innflytjandi,“ segir Hannan sem tekur undir að reglugerðin sé til þess gerð að koma í veg fyrir misnotkun eins og að sækja um í hverju landi á fætur öðru til að reyna að fá besta áfangastaðinn en Schengen grafi undan því.

„Það sem er hins vegar er að gerast er að þjóðirnar hafa óæskilegan hvata til að hleypa ólöglegum innflytjendum í gegnum landsvæði sitt, þannig telja þær að þeir verði vandamál annarra. Ég tók eftir einu síðasta sumar þegar ég var sjálfboðaliði í gistiheimili á Suður-Ítalíu fyrir ungt fólk sem var nýkomið yfir Miðjarðarhafið.

Þetta voru aðallega táningsstrákar frá vesturhluta Afríku en þetta voru ekki flóttamenn, ekki eins og við skilgreinum hugtakið lagalega. Þeir voru jú að flýja, en frá fátækt og spillingu, ekki frá ofsóknum og pyntingum.“

Gemsinn gerir ferðalagið mögulegt

Hannan segir strauminn knúinn áfram af tilkomu tækninýjunga en gemsinn geri ferðalagið mögulegt með aðgangi að upplýsingum sem foreldrar þessara ungu drengja gátu ekki látið sig dreyma um.

„Aðalvandamálið er að um leið og fólk er tekið um borð í skip veit það að það mun geta dvalið í Evrópu. Og eins lengi og fólk getur gengið út frá því sem vísu, mun fólk halda áfram að leggja af stað í þetta ferðalag í miklum mæli, þó stundum endi það á hræðilegan hátt.

Ástralir voru að glíma við það sama en ríkisstjórnin í Ástralíu ákvað að taka ekki við neinum sem kemur yfir hafið til landsins. Síðan þeir byrjuðu á þessu hefur enginn drukknað á leiðinni, því þeirri leið hefur verið lokað.“

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér . Aðrir geta skráð skráð sig í áskrift á einfaldan hátt hér .