Fjölmiðlarisinn Rupert Murdoch hjá 21st Century Fox hefur dregið tilboð sitt til baka um kaup á fjölmiðlafyrirtækinu Time Warner. Ef samruninn hefði gengið upp hefði verið um að ræða eitt stærsta fjölmiðlafyrirtæki allra tíma og margir telja að þetta hefði orðið síðasti samningur á ferli Murdoch.

Á þriðjudaginn tilkynnti 21st Century Fox að þeir hefðu dregið tilboð sitt, sem nam 80 milljörðum Bandaríkjadala, til baka vegna þess að Time Warner hefðu ekki verið nógu samvinnufúsir. Í stað þess mun fyrirtækið kaupa eigin hlutabréf upp á 6 milljarða Bandaríkjadala. Murdoch segist hafa orðið fyrir vonbrigðum að samruninn hefði ekki gengið upp.

21st Century Fox sendu tilboð sitt í síðasta mánuði, framkvæmdastjóri Time Warner Jeff Bewkes svaraði því fljótlega með því að segja að verið væri að vanmeta verðmæti Time Warner sem á meðal annars sjónvarpsstöðina HBO, CNN sjónvarpsstöðina og kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Warner. Sérfræðingar höfðu spáð fyrir að tilboð 21st Century Fox myndi nema 100 milljörðum dollara en svo var ekki.