Þrátt fyrir að margir hluthafar í fréttaveldinu News Corp, sem á fjölda breskra dagblaða auk Fox sjónvarpsstöðvarinnar í Bandaríkjunum, hafi verið mjög gagnrýnir á stjórn fyrirtækisins og á Rupert Murdoch sjálfan hélt hann völdum á aðalfundi, sem haldinn var í gær. Er það einkum símahleranahneykslið í Bretlandi sem veldur hluthöfum áhyggjum, en starfsmenn á blaði í eigu News Corp viðurkenndu að hafa brotist inn í talhólf fjölda fólks til að afla sér frétta.

Frá upphafi var ljóst að erfitt yrði fyrir aðra hluthafa að bola Murdoch frá völdum, því hann og fjölskylda hans fara samtals með um 40% atkvæða í News Corp og náinn samstarfsmaður fer með önnur 7%.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Rifrildi á fundinum

Ein af þeim hugmyndum sem ræddar voru á fundinum var að fenginn yrði sjálfstæður stjórnarformaður, en Murdoch gegnir bæði embættum stjórnarformanns og forstjóra News Corp. Sú hugmynd fékk hins vegar ekki nægan stuðning.

Murdoch reyndi til að byrja með að takmarka þann tíma sem hluthafar höfðu til að varpa spurningum til stjórnarinnar, en hann gafst upp á því og við tóku 90 mínútna rökræður og rifrildi milli hans og fyrirspyrjenda. Var það m.a. gagnrýnt að þótt Murdoch og fjölskylda eigi aðeins um 13% hlutafjár í fyrirtækinu ráði þau yfir 40% atkvæða.