Breski fjölmiðlakóngurinn Rupert Murdoch er í þann mund að setja í gang fyrirtæki í samvinnu við China Central Television (CCTV), fjölmiðlaarm og áróðursdeild kínverska kommúnistaflokksins. Mun þetta verða fyrsta dæmið um hlutdeild útlendinga í útsendingum ríkisfjölmiðla á landsvísu í Kína. Er þetta gert samkvæmt nýjum reglum sem tóku gildi í Kína í fyrra og heimila aukna þátttöku útlendinga í fjölmiðlarekstri þar í landi eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Reglurnar sem settar voru í Kína í fyrra eru í samræmi við kröfur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um að erlendir aðilar geti átt allt að 49% í nýjum fyrirtækjum. Ríkið mun eigi að síður vera meirihlutaeigandi í í öllum fjölmiðlafyrirtækjum. Talsmaður National Geographic hefur staðfest að viðræður hafi verið í gangi um langtíma aðild stöðvarinnar að slíku fyrirtæki í Kína. Ekkert sé þó hægt að gefa upp um hvernig þetta fyrirtæki verði samsett.

Sjónvarpsstöðin National Geographic sem er í 50% eigu Fox Entertainment Group, fyrirtækis Murdochs, sér þegar um að útvega CCTV heimildamyndir til sýninga. Mun sameiginlegu fyrirtækið National Geographic og CCTV vera ætlað að framleiða um 300 klukkutíma af sjónvarpsefni á ári, samkvæmt frétt South China Morning Post í Hong Kong.

Rupert Murdoch hefur undanfarin áratug verið að byggja upp mikil viðskiptasambönd í Kína. Hann hefur m.a. stýrt China Netcom næst stærsta símafyrirtæki Kína. Helsti félagi hans þar er Jiang Mianheng, sem er sonur fyrrum aðalritara kommúnistaflokksins og forseta Jiang Zemin, sem hefur líka verið einna atkvæðamestur í tæknivæðingu Kína. Markmið Murdochs hefur þó allan tímann, að sagt er, verið að koma sér fyrir í sjónvarpsgeiranum í Kína. Hann á þegar hlut í Phoenix sjónvarpsstöðinni í a Hong Kong sem nær um gervihnött til 40 milljóna Kínverja. Er sú útbreiðsla þökkuð smugu í reglum sem leyfa honum að senda út til hótela og heimila útlendinga á svæðinu. Gervihnattastöð hans getur sent út vítt og breitt um Asíu en áhorf Kínverjar á stöðina eru háð skilyrðum yfirvalda.

Murdoch hefur verið tíður gestur í Beijing sem enn er aðalhliðið að valdablokk marxista í Kína. Fékk hann meira að segja að halda fyrirlestur á skóla kommúnistaflokksins þar sem eldri liðskjarninn heldur enn þá í þá hugsun að innprenta beri hugmyndafræðina. Tengsl Murdochs við National Geographic eru talin gott tækifæri til að útfæra nýju reglurnar og innleiða erlenda þekkingu í sjónvarps- og prentmiðla í Kína án þess að þurfa að veikja strangt eftirlit flokksins með efnisvali. Fræðsluefni National Geographic á náttúrfræði- og vísindaefni er talið ólíklegt til að valda árekstrum við hugmyndafræði flokksins.