James Murdoch hefur sagt af sér sem stjórnarformaður í BskyB. Félagið rekur meðal annars Sky-sjónvarpsstöðvarnar. Í yfirlýsingu frá Murdoch segist hann vilja forða fyrirtækinu frá frekara tjóni vegna persónlegra mála. Hann hefur verið ásakaður um að hafa vitað af því að starfsmenn fréttamiðla sem hann átti og stýrði hefðu ítrekað brotist inn í talhólf fólks. Nicholas Ferguson, varaformaður stjórnarinnar, mun taka við af Murdoch.

Murdoch fjölskyldan á rúmlega 40% hlut í BskyB en samkvæmt frétt dagblaðsins New York Times ætluðu þau að stækka og styrkja hlut sinn í fyrirtækinu. Í kjölfar þess að upp komst um hleranir starfsmannanna tilkynnti fjölskyldan að ekkert yrði úr 12 milljarða dollara boði þeirra til kaupa á ráðandi hlut í BskyB.

Murdoch hefur þegar hætt í stjórn félags sem heldur um útgáfu bresku dagblaðanna The Times of London og The Sunday Times. Í mars var tilkynnt að hann myndi ekki snúa aftur til stjórnarsetu í uppboðshúsinu Sotheby´s og fyrr á árinu lét hann af störfum í stjórn lyfjafyrirtækisins GlaxoSmithKline.