James Murdoch segist aldrei hafa séð tölvupóstsamskipti sem staðfestu njósnir blaðamanna. Þetta kom fram í framburði hans á réttarhöldum um njósnir blaðamanna á dagblaðinu sem var undir hans stjórn. Hann sagðist jafnframt hafa staðið í þeirri trú að njósnir blaðamanna væru liðin tíð þegar hann tók við af föður sínum sem stjórnarformaður í bresku blöðunum The Sun og Sunday Times. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Á síðustu mánuðum og árum hefur komist upp um njósnir blaðamanna á blöðunum tveimur. Meðal þess sem blaðamennirnir eru sakaðir um eru símahleranir á síma Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, og mútur til lífvarða Elísabetar drottningar í því skyni að fá upplýsingar um konungsfjölskylduna. Þá hefur umræða um framgang blaðamanna í tengslum við rannsókn á morði ungrar breskrar stúlku, Milly Dowler, farið hátt, en ásakanirnar eru þess efnis að blaðamenn hafi brotist inn í talhólf síma stúlkunnar eftir dauða hennar og haft þannig áhrif á lögreglurannsókn.

Murdoch hefur frá upphafi þvertekið fyrir að hafa vitað af athæfi blaðamannanna. Hann tók við stjórn blaðanna af föður sínum árið 2007. Murdoch eldri mun bera vitni í dómsmálinu seinna í vikunni.