Hlutabréf í fjölmiðlasamsteypunni News Corp hafa hækkað um 34% þrátt fyrir að hafa átt undir högg að sækja vegna símahlerunarhneykslis hjá dagblöðunum News of the World og Sun í Bretlandi.

Rupert Murdoch, stofnandi New Corp, seldi 418.631 A-flokks hluti í fyrirtækinu. Það er um 5% af heildareign hans og fjölskyldu hans í A-flokks hlutabréfum fyrirtækisins. Hlutirnir eru um 10 milljóna dollara virði sem er um 1,3 milljarðar króna.

Murdoch fjölskyldan á um 40% í News Corp í B-flokks hlutum en sá flokkur hlutabréfa í fyrirtækinu hefur meira vægi innan hluthafahópsins.

Afkoma samsteypunnar á þriðja ársfjórðungu var með þeim betri í sögu fyrirtækisins en hagnaðurinn hljóðar upp á 2,3 milljarða dollara sem er um þrefalt meiri hagnaður en á sama tímabili árið 2011.