James Murdoch, sonur fjölmiðlamógúlsins Rupert Murdoch, hefur sagt af sér sem stjórnarformaður breska fjölmiðlafyrirtækisins BSkyB. Hann mun þó áfram sitja í stjórn félagsins. Samkvæmt breskum fjölmiðlum er afsögn Murdoch liður í því að fjarlægja fyrirtækið frá hlerunarhneykslinu svokallaða, en sem kunnugt er varð það opinbert sl. haust að dagblað í eigu þeirra feðga, News of the World, hafði hlerað síma og talhólf þekktra einstaklinga um árabil.

Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, sagði í pistli á vef BBC í gær að hann hefði heimildir fyrir því að Murdoch hefði sjálfur ákveðið að stíga til hliðar. Þetta er annað fyrirtækið þar sem Murdoch segir af sér stjórnarformennsku en í mars sagði hann af sér sem stjórnarformaður dagblaðsins News International. News Corporation, sem stofnað var af föður hans Rupert, á stóran hlut í báðum fyrirtækjum. Félagið á nú 39% hlut í BSkyB og til stóð að gera yfirtökutilboð í félagið. Nú hefur þó verið horfið frá þeirri stefnu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.