Fjölmiðlaveldi Robert Murdoch hefur samið um að greiða 2,6 milljarða dali, eða sem samsvarar 273 milljörðum íslenskra króna fyrir sjónvarps og netréttindi af leikjum í indversku úrvalsdeildinni í kricket næstu fimm árin. Tryggði félagið Star India, sem er í eigu 21st Century Fox, sér réttindin í gær, og vann þar bæði Facebook og Sony í útboði um réttinn.

Leikir í úrvalsdeildinni standa yfir í eingöngu tvo mánuði á hverju ári, en virði þeirra hefur aukist mikið eftir að áhorfendur víða um heim hafa sýnt keppninni aukin áhuga. Greiddi Sony 1 milljarð dala fyrir réttinn í 10 ár árið 2008, en í þetta sinn bauð félagið 1,7 milljarð fyrir sjónvarpsréttinn í samfloti með facebook sem bauð 600 milljón dali fyrir stafrænu réttindin.

Um er að ræða langvinsælustu íþróttina á Indlandi, og horfðu um 1,3 milljarður manns á 60 leiki í apríl og maí í úrvalsdeildinni í síðustu keppni, en í henni eigast við átta lið frá helstu borgum landsins. Um 61% allra íþróttastyrkja í landinu ganga til krikketíþróttarinnar samkvæmt KPMG.

Hver leikur mun kosta samkvæmt þessu um 8,5 milljón dali, sem gerir íþróttadeildina eina af þeim ríkustu í heimi. Til samanburðar nefnir frétt CNN um málið að nýlegur samningur CBS og NBC við NFL deildina í ameríska fótboltanum þýðir að þeir þurfa að greiða 45 milljón dali fyrir hvern leik. Í enska úrvalsdeildinni í knattspyrnu fást hins vegar 13,2 milljónir dala fyri rhvern leik.