Elon Musk hefur bannað stjórnendum félagsins að fara í ráðningar án þess að fá samþykki frá honum persónulega.

Þetta kemur fram í pósti frá Musk til stjórnenda félagsins. Þá bað Musk stjórnendur um að hugsa sig vel um áður en þeir leggja fram ráðningarbeiðni.

„Enginn getur gengið til liðs við Tesla, jafnvel sem verktaki, nema ég samþykki ráðninguna persónulega,“ sagði Musk í póstinum.

Framlegð Tesla hefur ekki verið lægri í tvö ár samkvæmt nýjasta ársfjórðungsuppgjöri félagsins, en félagið hefur lækkað verð á rafbílum sínum fimm sinnum frá áramótum.